Uppblástur

Submitted by eik on fös, 12/13/2019 - 11:07

Þar sem jörð er þurr og gróðurþekja veik, þarf ekki mjög mikinn vind til að jarðvegur fari að fjúka.  Moldin stöðvast gjarnan þar sem er betur gróið eða væta. Fínasta efnið fýkur þó oft á haf út. Áfok veldur því að jarðvegur þykknar miklu hraðar en ella. Rannsóknir á öskulögum og frjókornum í jarðvegi og botni stöðuvatna gefa glögga myndi af þróun gróðurs á Íslandi síðan síðasta jökulskeiði ísaldar lauk fyrir um tíu þúsund árum. Fljótlega eftir að ísaldarjökullinn bráðnaði, varð landið þakið víði. Birki kom í kjölfarið.

Við landnám urðu snögg umskipti. Eftir að Landnámslagið féll (árið 871), margfaldaðist hraði jarðvegsmyndunar. Þetta stafaði að bæði af uppblæstri, en einnig af því að árfarvegir sem áður greru fljótt upp eftir jökulhlaup og önnur flóð, náðu ekki að gróa upp og urðu viðvarandi uppspretta sandfoks. Eftir því sem jarðvegurinn þykknaði, varð hann grófari og fljótari að þorna, og þar með hættara við að blása upp.

Það fer eftir gerð gróðurlendisins hversu hætt því er við að uppblæstri.  Votlendi, þar sem grunnvatnsborð er að staðaldri nærri yfirborði, blæs ekki upp. Land sem þakið er kjarri eða skógi og gróðurþekjan er heil, blæs heldur ekki upp því gróðurinn skýlir yfirborði jarðvegs fyrir vindinum. Ef sár mynast í gróðurþekjuna, t.d. vegna vatnsrofs, þá geta myndast rofabörð þar sem vindurinn nær fjarlægja moldina neðan frá.

Plöntutegundir þola þurrk mis vel. Gras er með mjög grunnar rætur og því mjög viðkvæmt fyrir þurrki. Í þurrkatíð, eins og var t.d. sumarið 2019 á suðurlandi, verður grasspretta miklu minni en hún er í meðalári. Blómplöntur og runnar hafa rætur sem ná miklu dýpra og þola þurrk því mun betur. 

Beit getur stuðlað að uppblæstri og gróðureyðingu. Helstu beitardýr sem ganga laus á úthaga og afréttum á Íslandi eru gæsir, álftir, hreindýr, hross og sauðfé. Beit hrossa og hreyndýra er takmörkuð við tiltekin landsvæði. Þar sem álftir og gæsir voru hér fyrir landnám er ljóst að beit þeirra olli ekki þeim umskiptum sem urðu í kjölfar landnáms. Gæsir og hross éta fyrst of fremst gras, láta t.d. víðinn vera, meðan kostur er á grasi. Þessu er öfugt farið um sauðkindina, hún er sólgin í víði og ýmsar blómplöntur og vill helst "nýgræðing". Hún í veg fyrir að rofabörð grói upp með því að éta nýgræðinginn og róta í moldinni þegar hún leitar skjóls undir rofabörðunum. 

 

Efnisorð